Pokasjóður styrkir Sýndarveruleikadrauma um 1.000.000 kr.

Góðvild styrktarsjóður og Virtual Dream Foundation munu á þessu ári gefa amk 10 langveikum eða fötluðum börnum sýndarveruleikadraum og ætlar Pokasjóður að koma að verkefninu með styrk uppá 1.000.000 kr.


Það er því miður sorgleg staðreynd að langveik og fötluð börn geta oft ekki upplifað margt sem þeim langar að gera sökum fötlunar en með sýndarveruleika er nánast allt hægt að gera og upplifunin er ótrúlega raunveruleg


Nú þegar hafa 2 börn fengið draum sinn uppfylltan en það voru þau Sunna Valdís og Ægir Þór.
Sunna Valdís getur ekki farið í sund þar sem hún fær krampa við það að snerta vatn.
Piotr Loj hjá Virtual Dream Foundation útbjó sýndarveruleikaupplifun þar sem Sunna getur nú alltaf farið í sýndarveruleikasund í skólanum sínum Klettaskóla en hingað til hefur hún þurft að vera á bakkanum að horfa á hin börnin njóta.


Ægir Þór vildi fara í Zip line í Vík en komst ekki sökum fötlunar sinnar. Piotr í samstarfi við Zip line og Góðvild útbjó fyrir hann sýndarveruleika þar sem Ægir getur nú alltaf farið í Zip line.
Við afhendum börnunum svo sýndarveruleikagleraugu af fullkomnustu gerð sem þau fá til eignar og geta notað í margt annað heldur en að fara í sinn sérsniðna draum.

Það er dýrt og tímafrekt að sérsníða svona drauma því þetta er í raun eins og að framleiða sýndarveruleika stuttmynd fyrir hvert og eitt barn.

Snillingurinn með risastóra hjartað sem smíðar þessa drauma er Piotr Loj en hann er pólskur ríkisborgari og ætlar að nota þetta ár til að uppfylla drauma íslenskra barna. Hver draumur getur tekið allt að mánuð í framleiðslu þannig að það er mikið í þetta lagt.

Til þess að sækja um sýndarveruleikadraum þá er best að senda póst á godvild@godvild.is


Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *