
„Í taugalækningum er sambandið við foreldra og sjúklingana mjög sterkt. Ég held að ég geti talað við allan hópinn okkar, að þessi börn sitja í okkur daginn út og daginn inn,“ segir barnalæknirinn Laufey Ýr Sigurðardóttir.
„Við erum alltaf að velta því fyrir okkur hvernig við getum gert betur og hvernig við getum hjálpað. En við erum ekki með allar lausnir, við erum ekki með lausnir á þessum biðlistum sem eru alls staðar.“
Laufey Ýr er taugalæknir með mikla reynslu og var hún gestur í nýjasta þættinum af Spjallið með Góðvild, sem birtist á Vísi og helstu efnisveitum í dag. Þar ræddi hún meðal annars um biðlistana hér á landi.
„Hver dagur sem eitthvað barn á Íslandi situr á biðlista eftir greiningu, hvort sem það er þroskafrávik, alvarlegur sjúkdómur, hegðunarröskun, geðröskun, hvað sem það er, þetta er tapaður dagur í lífi þessara barna.“

Þyngra en tárum taki
Að hennar mati væri hægt að gera mun betur og bíður hún fram sína aðstoð við það. Laufey er átta barna móðir sjálf. Eins og staðan er núna eru sum börn í mörg ár á biðlista.
„Það er margt búið að reyna. Þegar ég var á Greiningarstöðinni þá skildi maður erfiðleikana, ég skil erfiðleikana. En við verðum að finna lausn. Einhvern veginn finnst mér við ekki geta stofnað enn eitt nýtt batteríið.“
Laufey Ýr segir að það sé ekki hægt að hafa kerfið þannig að barn fari í frumgreiningu og lendi svo í bið eftir næsta skrefi og svo er frumgreiningin kannski orðin úrelt þegar þar að kemur.
„Þetta er þyngra en tárum taki. Ég vildi svo gjarnan að maður gæti einhvern veginn komið þessu í þannig farveg að það sé hægt að gera þetta hraðar og bregðast fyrr við.“
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinn á Visir.is