Góðvild gefur tjáskiptatölvur

Góðvild gaf Klettaskóla þrjár tjáskiptatölvur fyrir nemendur sem þurfa nauðsynlega á þeim að halda. 

Frá vinstri: Guðrún, Hanna Rún og Ragnheiður Erla

Góðvild hefur þá gefið skólanum fimm tjáskiptatölvur alls en fleiri og fleiri nemendur þurfa á þessum tjáskiptamáta að halda.

Ragnheiður Erla Hjaltadóttir stjórnarmaður Góðvildar afhenti tjáskiptatölvurnar þeim Hönnu Rún Eiríksdóttir og Guðrúnu Gunnarsdóttir aðstoðarskólastjóra sem tóku við fyrir hönd Klettaskóla

Hanna Rún er sérfræðingur í upplýsingatækni og hefur lyft grettistaki þegar kemur tjáskiptatækni fyrir börnin í Klettaskóla sem eiga erfitt með að tjá sig og í raun fyrir öll börn á Íslandi því hún hefur unnið náið með fyrirtækinu sem hannar þessa tækni. 

Tobi samskiptatölva

“Það eru grundvallarréttindi hvers manns að geta tjáð sig” Segir Hanna Rún

Í Klettaskóla notum við fjölmargar leiðir til að tjá okkur. Við tjáum okkur með orðum, tákn með tali, líkamstjáningu, svipbrigðum, hljóðum og síðast en ekki síst með þar til gerðum tjáskiptatölvum.

Þeir nemendur sem eiga erfitt með að gera sig skiljanlega eiga þess kost að læra á tjáskiptatölvu til að eiga samskipti við félaga sína og starfsfólk.

Hjálpartæki sem þetta er líkt og hækjan er fyrir þann sem er haltur eða hjólastóll fyrir þann sem ekki hefur mátt í fótunum.

Tjáskiptatölvan er eitt mikilvægasta hjálpartækið vegna þess að með því getur nemandinn tjáð tilfinningar, vilja sinn og líðan.

Hversdagslegir hlutir eins og matur getur verið ansi mikilvægur þáttur og nemandinn gengur frá matarvagninum, stoltur með grænu baunirnar sem hann bað um en afþakkar hinsvegar sultuna sem fyrirfram þykir sjálfsagt að hann vilji. Það jafnast ekkert á við brosið sem brýst fram þegar gagnkvæmur skilningur er á tjáningunni.

Nemendur tjá sig um óskir sínar og þrár með hjálp þessarar tjáskiptatölvu.

Skólinn, hefur í dag, fengið góða gjöf frá Góðvild styrktarsjóði sem verður til þess að fleiri börn innan skólans fái tækifæri til að tjá sig.

Þjálfunartölvur af þessu tagi koma sér einkar vel og skipta miklu máli í námi nemenda skólans.

Það er ómetanlegt að eiga góða að og við þökkum kærlega fyrir okkur” sagði Hanna Rún Eiríksdóttir sem tók við samskiptatölvunum ásamt Guðrúnu Gunnarsdóttir aðstoðarskólastjóra