Hagsmunahópur Góðvildar tekur undir yfirlýsingu Tabú í kjölfar dóms héraðsdóms Reykjanes frá 3. aprí síðastliðnum þar sem þroskaþjálfari var dæmdur fyrir ofbeldi gegn fötluðu barni.
Ofbeldi gagnvart börnum á aldrei að líðast og er mikilvægt er að allir sem hafa grun um að barn sé beitt ofbeldi eða annari vanvirðandi háttsemi tilkynni það til barnaverndarnefndar. Um er að ræða ófrávíkjanlega tilkynningaskyldu samkvæmt 16. gr. barnarverndarlaga nr. 80/2002 og eru engir aðilar undanþegnir henni.
Er skylda og eftirlitshlutverk þeirra sem vinna með eða hafa afskipti af börnum áréttuð í 17. gr. laganna.
Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýrt kveðið á um að börn skuli búa við friðhelgi frá hvers kyns ofbeldi og að fötluð börn skuli búa við sérstaka vernd.
Til að tryggja að svo sé þurfum við öll að vera á varðbergi fyrir ofbeldi í garð barna og ekki hika til að tilkynna slíkt til barnaverndar enda ber okkur öllum lagaleg skylda til þess.