Veikindarétturinn sterkari í Svíþjóð

„Ég féll fyrir þessari sérgrein, mér fannst hún einfaldlega lang skemmtilegust,“ segir barnalæknirinn Helga Elídóttir. Í haust stofnaði hún Facebook hópinn Barnalæknirinn þar sem hún fræðir foreldra og aðra áhugasama um ýmislegt gagnlegt tengt veikindum barna. Helga lærði fyrst hér á landi en flutti svo til Malmö í Svíþjóð þar sem hún lærði barnalækningar og ofnæmislækningar barna.

„Síðan fór ég til Lundar þar sem ég sérhæfði mig í lungnalækningum barna.“

Hún er nú aftur flutt til Íslands, en viðurkennir að í Svíþjóð hafi hún fengið fleiri tækifæri til að sinna sinni sérgrein.

„Vinnulega séð er margt svipað í rauninni. Náttúrulega eru samskiptin við börnin alltaf jafn skemmtileg áskorun í sama hvaða landi maður er. En faglega getur maður úti unnið mjög mikið með sína undirgrein.“

Útópían Svíþjóð

Helga telur að síðustu fimm árin í Svíþjóð hafi 95 prósent að hennar vinnutíma farið í eitthvað tengt hennar sérhæfingu. Á Íslandi er hlutfallið mun lægra og telur hún að helmingur vinnutímans fari í almennar barnalækningar.

„Það eru alveg kostir og gallar við hvort tveggja,“ segir Helga, í þættinum Spjallið við Góðvild.

Að hennar mati er teymisvinna í kringum veikindi barna komin skrefinu lengra í Svíþjóð en hér heima, þó að þetta sé nú að breytast í rétta átt. Það er þó margt sem tengist fjölskyldum langveikra barna sem er betra hjá nágrönnum okkar.

„Veikindaréttur fólks er sterkari í Svíþjóð heldur en hér, sérstaklega hvað varðar börn. Þú átt miklu fleiri veikindadaga fyrir börn í Svíþjóð heldur en hér. Svíþjóð er útópía fyrir velferðarkerfi í rauninni að mörgu leyti og mörg lönd sem hafa tekið sér það kerfi til fyrirmyndar. Það er samt ekkert fullkomið, alls ekki.“

Hún segir að þar sem Íslendingar eru svo fáir þá sé erfitt fyrir lækna að viðhalda sinni sérhæfingu hér á landi og afla sér nýrrar þekkingar. Slíkt þurfi líka að gera erlendis

„Eins og í minni undirgrein, eru möguleikar til endurmenntunar á Íslandi engir.“

Viðtalið við Helgu má sjá á Vísir.is