Bílastyrkir vegna hreyfihamlaðra barna – þörf fyrir endurskoðun?

Samkvæmt 10. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 170/2009 geta framfærendur hreyfihamlaðra barna sem njóta umönnunargreiðslna átt rétt á styrkjum og uppbótum vegna kaupa á bifreiðum. Er um þrenns konar aðstoð að ræða; uppbót að fjárhæð 360.000 kr., styrk að fjárhæð 1.440.000 kr. og styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Getur slíkur styrkur numið allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, það er grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða barn sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Verður styrkurinn þó aldrei hærri en 5 milljónir króna. Í öllum tilvikum þarf að liggja fyrir mat á þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja. Sé sótt um styrk vegna sérútbúnar bifreiðar vegna mikið hreyfihamlaðs barns þarf einnig að sækja um hjálpartæki í bílinn hjá sjúkratryggingum Íslands til að sýna fram á þörf á sérútbúnum bíl.

Hægt er að sækja um uppbót og styrk til bifreiðakaupa á 5 ára fresti. Sé bifreiðin er seld innan fimm ára þarf leyfi TR fyrir sölunni. Sé ný bifreið ekki keypt í staðinn þarf að endurgreiða hluta uppbótarinnar eða styrksins og er þá miðað við fjölda mánaða sem eftir eru af fimm ára tímabilinu. Ef sótt er um styrk vegna sérútbúins bíls og hentug bifreið er ekki til hér á landi er hægt að sækja um niðurfellingu á vörugjöldum hjá Skattinum (sameinuðu embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra).

Þar sem gerð er krafa um hlutfallslega endurgreiðslu á styrkjum sé bifreiðin seld innan fimm ára, auk þess sem hægt er að fá niðurgreiðslu vörugjöldum á innfluttum bílum, er innbyggður hvati í kerfinu til að kaupa frekar nýja bíla en gamla. Spilar þar líka inn í að nýir bílar eru almennt ódýrari í rekstri og krefjast minna viðhalds en eldri bílar. Eins eru minni líkur á að bílinn sé ónýtur eða verðlítill þegar hægt er að sækja um bílastyrk til TR að nýju ef keyptur er nýr eða nýlegur bíll. Hér á landi er ekki virkur endursölumarkaður með sérútbúna bíla og því ekki hlaupið að því að finna og kaupa þá notaða. Finnist hins vegar hentugur eldri bíll án sérútbúnaðar er ekki víst að það borgi sig að setja í hann hjálpartæki ef ljóst er að bílinn muni endast skemur en sá búnaður sem settur er í hann.

Foreldrar hreyfihamlaðra barna sem þurfa sérútbúna bíla eiga því lítið val um annað en að kaupa nýja bíla. Gera má ráð fyrir að slíkir bílar kosti að lágmarki 10-11 milljónir króna. Eru hæstu styrkirnir upp á 50-60% af kaupverði bifreiðarinnar eða að hámarki 5 millljónir króna, almennt ekki veittir vegna fatlaðra barna yngri en 10 ára nema í undantekningatilfellum. Eru þó flest mikið fötluð 10 ára börn orðin þung og erfitt að koma þeim og hjálpartækjum þeirra án aðstoðar inn í venjulega bíla. Fái foreldrar slíkan styrk þurfa þeir að jafnaði að taka lán eða greiða 5-7 milljónir króna úr eigin vasa fyrir kaupverði bílsins. Getur það reynst erfitt þar sem sumir foreldranna hafa verið frá vinnumarkaði til lengri tíma eða farið í hlutastörf til að geta annast barnið. Þá hefur upphæð minni styrksins einungis hækkað um 440.000 kr. á 21 ári eða úr 1.000.000 kr. árið 1999 í 1.440.000 kr. árið 2020. Ætti styrkurinn að vera kominn upp í rúmlega 2,5 milljónir króna ef hann hefði haldið í við vísitölu neysluverðs. Foreldrar sem eiga ekki rétt á stóra styrknum en þurfa samt sem áður á stórum bílnum að halda vegna plássfrekra hjálpartækja hafa því setið verulega eftir.

Það er því spurning hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða það kerfi sem snýr að bílastyrkjum, lækka viðmiðunaraldur barna fyrir hæsta styrknum og hækka styrkina almennt í samræmi við verðlag þannig að foreldrar hreyfihamlaðra barna hafi allir kost á að kaupa hentuga og/eða sérútbúna bíla óháð efnahag, en eins og staðan er dag er það ekki á allra færi.